Við hjónin skelltum okkur til Danmerkur að heimsækja Önnu Fanney sys og Eddu á Camping svæðið sem Anna Fanney rekur núna, geggjaður staður og bara klukkutíma frá Hirtshals svo þetta var klukkutíma akstur til Color Line (skipið sem siglir á milli) svo 3 tímar í skipinu og svo klukkutíma akstur til Önnu. Veðrið í DK var gott en alveg 6 gráðum kaldara en hjá okkur en sólin skein svo það hlýnaði aðeins en maður er orðinn svo góðu vanur að það þarf að vera meira en 15 gráður til að hægt sé að sitja úti á hlýrabol. En þá hefur maður bara peysuna ekki langt undan.

Það var ljúft að hitta þessar tvær, alltof langt síðan síðast, en eins og alltaf eins og það hafi verið í gær. En auðvitað geta þær ekki alltaf verið eðlilegar, þið sem þekkið þær vitið það nú alveg, ha ha ha.

Camping svæðið sem Anna rekur er rosalega huggulegt og snyrtilegra tjaldsvæði hef ég aldrei séð. Mjög rólegt þarna, allt farið í ró klukkan 9 á kvöldin og svo vaknar þú við að börnin eru farin að leika sér. Þarna eru nokkur hjólhýsi með fast pláss en svo þegar sumrar meira fyllist allt af ferðamönnum með alls konar hjólhýsi, tjaldvagna, tjöld osfrv.

Edda var svo heppin að geta keypt sér eitt af föstu hjólhýsunum þarna og nýtur þess í botn að koma og vera í sveitinni og með Önnu sína hjá sér. Mjög fínt hjólhýsi hjá henni og ljósið yfir borðstofuborðinu er svo mitt eða hvað finnst ykkur?

Svo bauð Anna okkur í bíltúr að skoða stönd sem er þarna rétt hjá, mjög sjarmerandi og skemmtilegt að sjá hvernig bátarnir eru dregnir í land eftir ströndinni með spilum og vírum og alls konar. En Anna hafði ekki áttað sig á því hvað sandurinn er gljúpur þarna og keyrði bara út á ströndina og festi að sjálfsögðu bílinn, við Þráinn ætluðum nú að fara að ýta en Anna þrjóskupúki sagði nei, svo við fórum þá bara út að labba og viti menn, hún kom bílnum þá uppúr sandinum. Humm, hvað segir það um okkur?

Þessi fallegu gulu engi eru út um allt þarna á svæðinu og við komumst að því að úr þessum blómum er unnin rapsolía, dásamlega falleg engi og lyktin góð.

Á leiðinni heim ákváðum við að koma við á fallega Skagen en því miður var bærinn næstum tómur og engar búðir opnar þar sem sumartíminn er víst ekki alveg kominn, en við löbbuðum um og nutum okkar í veðurblíðunni og þessum fallega bæ.

Og þegar maður er á Skagen þá stoppar maður á fiskibryggjunni og fær sér humarsúpu og fish and chips.

Síðasti viðkomustaður var svo Hirtshals áður en við fórum aftur í skipið og þar ætluðum við að koma við hjá slátraranum og kaupa eitthvað af kjöti en hann er þá búinn að loka og bara kominn með eitt horn í Spar versluninni, sjálfsagt vegna þess að það borgar sig ekki fyrir norðmenn að versla í Dk því norska krónan er svo veik.

Aftur á móti borgar sig að kaupa øl og vín því bjórdósin kostar bara 3,50 nok en hérna yfir 20 nok og vínbeljan kostar 150 nok en hérna 400 nok en þá kemur að því hvort maður vilji eða þori að taka með sér eitthvað meira en löglegan tollinn og hann er ekki mikill bara eins og á Íslandi.

Anna vildi taka eina mynd af okkur og auðvitað stilltum við okkur upp eins og fólka á að gera. Ha ha ha .

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.